Málmsuðukeppni 2019

Andre Sandö, starfsmaður Útrásar á Akureyri, stóð uppi sem sigurvegari í Íslandsmeistaramótinu í málmsuðu, sem var haldið sl. föstudag, 25. október, í húsnæði málmiðnaðarbrautar VMA. Málmsuðufélag Íslands stóð fyrir keppninni í samstarfi við Iðuna fræðslusetur, VMA og Félag málmiðnaðarmanna Akureyri. Yfirumsjón með keppninni hafði Gústaf Adolf Hjartarson, starfsmaður Iðunnar. Kennarar málmiðnaðarbrautar VMA, með Kristján Kristinsson í broddi fylkingar, unnu kappsamlega að undirbúningi fyrir keppnina.

Ellefu þátttakendur voru í mótinu að þessu sinni og starfa þeir allir í málmiðnaði á Akureyri. Tíu af ellefu hafa verið eða eru í námi á málmiðnaðarbraut VMA. Þátttakendur í mótinu voru:

Útrás:
Andre Sandö
Einir Þ. Kjartansson
Hermann Kr. Egilsson

Norðurstál:
Arnar Freyr Gunnarsson
Vignir Sigurðsson
Brynjar H. Sveinsson

Slippurinn:
Adam Snær Atlason
Víðir Orri Hauksson
Andri Már Ólafsson
Ivan Atanasov Pashev

Undanfarin ár hefur verið forkeppni á Akureyri og síðan hefur lokakeppnin farið fram í Reykjavík. Nú var ákveðið að snúa þessu við, að hafa forkeppni í Reykjavík og lokakeppnina á Akureyri. Ástæðan fyrir þessari breytingu, segir Gústaf Adolf Hjartarson, að hafi einfaldlega verið sú að áhuginn á keppninni hafi ávallt verið meiri á Akureyri en í Reykjavík. Skemmst sé frá því að segja að enginn hafi mætt til leiks í forkeppni í Reykjavík og því hafi bara verið þessi eina keppni til Íslandsmeistara á Akureyri.

Keppnin hófst um kl. 13 sl. föstudag og fengu þátttakendur fjögur verkefni til þess að glíma við; í TIG-suðu, logsuðu, MAG-suðu og pinnasuðu. Að þessu sinni voru suðuhlutir keppenda sjónskoðaðir en oft er bæði sjón- og röntgenskoðað. Verðlaunað var fyrir hverja suðuaðferð, keppendur fengu stig fyrir hvern suðuhlut. Samanlagður stigafjöldi var síðan til Íslandsmeistara í málmsuðu. Verðlaun fyrir þrjú efstu sætin gaf fyrirtækið Gastec og var þannig aðal styrktaraðili keppninnar í ár en fyrirtækið hefur verið starfandi í átján ár og sérhæfir sig í sölu og þjónustu á ýmsum búnaði til málmsuðu.

Verðlaun voru afhent á föstudagskvöldið í Iðnaðarsafninu á Akureyri. Úrslit urðu sem hér segir:

TIG-suða
1. Víðir Orri Hauksson
2. Vignir Sigurðsson
3. Andri Már Ólafsson

Logsuða
1. Andre Sandö
2. Arnar Freyr Gunnarsson
3. Ivan Atanasov Pashev

MAG-suða
1. Víðir Orri Hauksson
2. Andri Már Ólafsson
3. Ivan Atanasov Pashev

Pinnasuða
1. Andre Sandö
2. Andri Már Ólafsson
3. Adam Snær Atlason

Heildarkeppni
1. Andre Sandö, Útrás
2. Víðir Orri Hauksson, Slippnum
3. Andri Már Ólafsson, Slippnum

Hér er mynd af þeim þremenningum. Frá vinstri: Andri Már Ólafsson, Víðir Orri Hauksson og Íslandsmeistarinn Andre Sandö.

Slippurinn vann liðakeppnina, stigahæstir voru Víðir Orri, Andri Már og Ivan Atanasov.

Fram kom í máli Gústafs Adolfs við verðlaunaafhendinguna að afar mjótt hafi verið á munum og erfitt að komast að endanlegri niðurstöðu. Hann lauk miklu lofsorði á frammistöðu keppenda og að keppnin hafi tekist með miklum ágætum. Ljóst væri að vel væri staðið að kennslu í málmiðngreinum á Norðurlandi, sem væri afar ánægjulegt.

Jóhann Rúnar Sigurðsson, formaður Félags málmiðnaðarmanna Akureyri, segir mikilvægt að hlúa að málmsuðu og því sé Íslandsmeistaramótið afar gagnlegt til þess að vekja athygli á greininni og ánægjulegt sé að mótið hafi verið haldið á Akureyri.