Um félagið

Félagið er stofnað 1982, fyrstu stjórn skipuðu meðal annarra, Elías Gunnarsson formaður, Bjarni Thor varaformaður og Pétur Sigurðsson gjaldkeri. Tilgangur félagsins var og er að efla verk og tækniþekkingu á sviði málmsuðu og gæðavitund þeirra sem vinna í greininni.

Meðal þess sem félagið hefur staðið fyrir er Málmsuðusýning sem haldin var í Laugardalshöll á fimm ára afmæli félagsins 1987, þá stóð félagið að norrænni málmsuðu ráðstefnu á Hótel Loftleiðum árið 2000 í samvinnu við málmsuðufélögin á hinum norðurlöndunum en félagið hefur í gegnum tíðina verið í nánu sambandi við önnur norræn félög á þessu sviði og nú síðast stóð félagið fyrir Málmsuðudeginum 8 Maí í samvinnu við Iðuna fræðslusetur, sem að tókst það vel að stefnt er að gera þennan dag að föstum lið á tveggja ára fresti.

Félagið hefur á seinni árum í auknum mæli leitað til fyrirtækja og stofnanna um fræðslu og kynningarefni og má þar nefna meðal annars kynningarferð til Marel þar sem félagsmönnum gafst kostur á að kynnast þeirra hátækni og aðferðum við framleiðslu vélbúnaðar á heimsmælikvarða, félagið stóð einnig fyrir kynningu á Hardox stáli í samvinnu við Vélsmiðju Guðmundar ehf. Þá má einnig geta þess að félagið hefur síðan 1994 staðið fyrir árlegu Íslandsmóti í málmsuðu.

Ný stjórn var kosin á síðasta aðalfundi félagsins og hana skipa eftirtaldir: Formaður  Sigurjón Jónsson, varaformaður, Gústaf Adólf Hjaltason, gjaldkeri, Tryggvi Pétursson, ritari Haraldur Baldursson,  meðstjórnandi Finnbogi Þór Árnason og varamenn, Aðalsteinn Jónsson og Þráinn Sigurðsson. Með nýjum mönnum koma  nýjar áherslur og stefnir ný stjórn að því að gera félagið virkara og sýnilegra en það hefur áður verið, til dæmis með sýningum og ráðstefnum á borð við Málmsuðudaginn, útgáfu fréttabréfs og síðast en ekki síst með nýrri heimasíðu félagsins og Facebook-síðu.